Einkunnarorð fremst: „Sölmundur var fallegur karl, ó fyrir framan. Þið hefðuð átt að sjá hann, börn!“ (Úr Barnagullum Jóns Árnasonar.)
Í bókinni eru fjórtán sögur:
Myndin
Mynd eftir þekktan listamann fölnar og hverfur undir glerinu í ramma sínum. Þegar fólkið sem mest hefur horft á hana reynir að endurskapa hana í huganum ber engum saman um hvert myndefnið hafi verið.
(Þýdd á norsku).
Lúlli og leiðarhnoðað
Lúlli frændi átti erfitt með að fóta sig í tilverunni þangað til hann fann sitt leiðarhnoða. En þráðurinn slitnar, Lúlli missir af hnoðanu, fer út af sporinu og týnist. Mörgum árum síðar kemur í ljós að hugsanlega hafði hann fundið sig fremur en týnst.
(Þýdd á þýsku).
Viðsnúnings hressandi hristingur
Vesturíslenski auðkýfingurinn Sid Swarfdale hafði mikla trú á því sem hann kallaði „viðsnúnings hressandi hristing“. Sögumaður og vinir hans reyna hið sama með því að horfa á kvikmyndir aftur á bak standandi á haus.
Eftir spennufallið
Kaupsýslumaðurinn Guðni Weltschmerz ræður Aðalstein og Eddu til að annast daglegan rekstur á sjoppunni Paradís. Vinnan er létt og allt gengur eins og í sögu þar til Ormur sölumaður hjá sælgætisgerðinni Freistingu h/f fer að gera sig heimakominn á staðnum.
Í draumi sérhvers manns
Halldór fulltrúi hjá Gildismati ríkisins hefur litla trú á því að mark sé að draumum. En eftir að skúringakonan Drauma-Rósa tjáir honum að það sé fyrir peningum að dreyma skít dreymir hann einmitt slíkan draum og skiptir í kjölfarið um skoðun. Ráðningin reynist þó öðruvísi og mun nærtækari en hann hafði ætlað.
(Þýdd á frönsku og þýsku).
Aðsókn
Háhýsi voru reist þar sem Timburportið stóð áður. Ekki líður á löngu þar til ólánið fer að elta staðinn. Undarleg hljóð taka að heyrast og fleira sem vart er hægt að flokka undir annað en reimleika. Skýringin reynist náttúrleg, en af hverju skyldi ástandið eiga að batna við það?
(Þýdd á ensku).
Áhrínið
Það reynist afdrifaríkt fyrir Þórð Jónsson íslenskukennara þegar hann af hégómaskap ætlar að veiða upp úr nemendum sínum hvort hann gangi undir einhverju uppnefni í þeirra hópi.
(Þýdd á ensku og norsku).
Saga Svefnflokksins
Ritdómur um Sögu Svefnflokksins, bók Ingólfs Arnólín (Reykjavík 1998). Svefnflokkurinn var stjórnmálaflokkur sem tók afleiðingum þess að á venjulegri mannsævi fer meiri tími í svefn en nokkurt einstakt atferli annað.
Opinskánandi
Hin vinsæla sjónvarpskona Sigurlaug hefur farið í svo mörg opinská viðtöl í glanstímaritum að líf hennar er í rúst. En er hægt að hugsa sér betra veganesti í enn eitt opinskátt?
(Þýdd á esperanto og norsku).
Klámhundurinn
Á yfirborðinu er Lilli spakur og gæflyndur heimilishundur í stærri kantinum. Sá er einn ljóður á ráði hans hversu klofsækinn hann er. Áhugi Lilla og þráhyggja á þessu sviði framkallar að lokum með skelfilegum afleiðingum þá grimmd sem í honum býr.
Dýrið
„Tveir unglingar gengu fram hjá og töluðu um Katanesdýrið – annars var allt hljótt.“ Í sögunni er gerð alvarleg tilraun til að skapa eðlilegan bakgrunn að þessum dularfullu orðum Steins Steinars úr pistli hans „Sjö gegn Þebu“, sem birtist í Hádegisblaðinu 14. október 1940.
Dundi
Þegar alkóhólistinn Sigurður Kjögx er fenginn til að lesa úr ævisögu sinni, „Byttu“, fyrir nemendur Menntaskólans á Helvík, áttar hann sig á því sér til skelfingar að skólameistarinn er drengur sem hann sjálfur hafði forgöngu um að leggja í einelti í gagnfræðaskóla.
(Þýdd á norsku).
Keflvíkingasaga
Landnámsmaður ásamt fjölskyldu og þrælum nemur land í Keflavík í Fjörðum nyrðra, rúmum 1100 árum á eftir tímanum. Tilraunir til að rannsaka atferli fólksins vísindalega fara út um þúfur. Aðlögun að nútímanum reynist mannskæð og á ýmsan annan hátt erfið.
(Þýdd á finnsku, sænsku, frönsku og þýsku).
Litur orða
Upprifjun frá þeim tíma þegar orðin höfðu lit.