Einkunnarorð bókarinnar:  „Nú hefur fleira orðið senn en einn hlutur og verður þó frá einum senn að segja.“ (Úr Guðmundar sögu dýra.)
15 sögur, örsögur og þættir:

Karamellubréfið

Örstutt hugleiðing og endurminning um störf við timburflokkun í Völundarportinu um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.

Yxu víur

Þröstur Haðarson er prófarkalesari, djarfur, metnaðarfullur og fylginn sér í starfi en atkvæðalítill í kvennamálum.

Skýrsla

Bandaríska körfuknattleiksliðið NOW, New Orleans Warriors, er eingöngu skipað þeldökkum leikmönnum og virðist komið til Íslands til að iðka íþrótt sína. Heimsóknin reynist þó eiga sér allt annan og mun ískyggilegri tilgang.

Ókvæða við

Ljóðskáldið Bragi Kjögx lendir í vanda þegar hann tekur að sér að gefa út eftirlátinn kveðskap vinar síns síns, Gunnars Halldórssonar verkfræðings. Hann telur sig leysa vandann með því að skipta út ljóðum Gunnars fyrir eigin óbirt ljóð. Við það skapast aftur á móti ný vandamál, harla óvænt.
(Þýdd á finnsku og sænsku).

Saumavélin

Örsaga þar sem kirkju er líkt við saumavél.

Með veggjum

Örsaga um skoðun sem var veggfóður.

Perlur frá Hermanni Kjögx eru bestar

Sögumaður fær fágætan sjúkdóm, ostrusyndrómið, sem veldur því að sandkorn milli táa umbreytast í perlur. Ólæknandi sjúkdómur en arðbær.

(Þýdd á frönsku og norsku).

Völin á mölinni

Syrpa af lausbeisluðum örþáttum úr smiðju Korts Kjögx.

Konu saknað

Örsaga eða hugleiðing út frá ímyndaðri ljósmynd í blaði.

Maðurinn er það sem hann væri

Skáldið Sæmundur Örn segir frá kynnum sínum af Skúla W. Skíðdal. Skúli var einn þekktasti og dáðasti höfundur landsins og hélt við orðspori sínu með því að láta aldrei neitt frá sér fara.
(Þýdd á norsku).

Í kaffi í Bolungavík

Um eðli drauma og draummennta. Við sögu kemur Katalínaflugbátur á Ísafirði snemma á sjötta áratug síðustu aldar.

Blóðsugurnar

Söguhetjan týnir hauskúpuhring og verður fyrir árás frá blóðsugum.

Pískó

Þórhallur Kjögx rifjar upp bernskuminningu um kvikmyndina Psycho eftir Alfreð Hitchcock.

Litla stund hjá Hansa

Þegar dr. Finnur Jónsson bankastjóri Hagbankans ákveður að hefja blokkflautunám í Tónskólanum kemst hann að því að umburðarlyndi fólks í þjóðfélagi nútímans er ekki jafn mikið og mátt hefði ætla.
(Þýdd á norsku og þýsku).

Eigandinn

Þegar kennarinn Hákon Kjögx tekur af hugsjón að sér yfirgefið reiðhjól órar hann ekki fyrir því að hann eigi eftir að enda sem ærulaus þjófur.
(Þýdd á esperanto, norsku og þýsku).