Söguleg skáldsaga frá sautjándu öld sem fjallar um örkumlamanninn Guðmund Bergþórsson (1657-1705) eitt mikilvirkasta rímnaskáld allra tíma, eina mann á landinu sem kallaður er skáld í manntalinu 1703. Aðeins í draumum sínum og skáldskap er hann frjáls maður. Í veruleikanum liggur Guðmundur máttvana og bjargarlaus. En hann eignast vin, brennimerktan þjóf sem verður honum sem fætur hans nýir.

Upphaf sögunnar:

Guðmundur Bergþórsson skáld kemur hlaupandi eftir ljósri fjöru. Breiðir út faðminn lengra hærra mót hækkandi sól og hleypur í hægagangi eins og hann liggi í seigu lofti. Fæturnir eru ekki í jarðsambandi nema tágómarnir þyrla sandi annað veifið …
Sama morgun skömmu síðar vaknaði hann á fleti sínu við hanagal. Klettakotið þarna á Búðum umlukti hann sem fyrr, hans veraldlega hylki og viðkomustaður. Hann lá í hnipri á flatsænginni innan um bækur sínar og skriffæri.
Ekki heyrði hann til mannaferða. Hanagalið hafði þá ekki verið hanagal heldur hluti af draumi hans.
Því draumur hafði það verið og þótti honum ekki kyn, svo margoft hafði hann áður dreymt sig heilan. Að hann gengi og hlypi eins og aðrir, væri loks staðinn upp úr sinni kröm.
Hann svipti af sér fornu brekáni, ókennilegu trafi, en þó mátti greina í því munstur aftan úr forneskju. Það var vinstri hönd hans sem verkið vann. Þar í handlegg átti hann styrk frá olnboga og fram í fingurgóma. Höfði sínu hélt hann og bar það jafnan hátt, en að öðru leyti var líkami hans máttlaus.

Úr umsögn einangrunarfanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í bréfi til höfundar 1985:

„ … einangrunarfangar drepa tímann á furðulegasta máta, t.d. mæla klefann með tannburstanum, reyna að greina landvætti og forfeður sína í múrnum, o.s. frv. En í gær komst ég yfir bók þína Kyrr kjör, ég gleypti hana í mig, sá sjálfan mig í þjófinum (ég er sjálfur þjófur, eiturneytandi, sjóari, ferðalangur og fátt fleira), ég vældi af hlátri yfir kaflanum um komu biskupsins. Þetta er reyndar ein besta lesning sem ég hef lesið af síðari tíma bókmenntum á íslenskri tungu … “
-Brennimerktur