Ný fornsaga sem byggir á Svarfdæla sögu og Þorleifsþætti jarlaskálds úr Flateyjarbók. Á hverju kvöldi þegar Hallbjörn hali sauðamaður leggst til svefns í yfirsetunni á Þingvöllum hugsar hann um kvæðið sem hann vill yrkja; það fjallar um Þorleif jarlsskáld sem sagnir herma að hvíli þar undir sem sauðamaður sefur. „Hér liggur skáld … “ byrjar hann æ ofan í æ en kemst svo ekki lengra með kvæðið fyrr en Þorleifur hleypur sjálfur undir bagga með honum – í draumi, því hann hefur legið dauður í haugi sínum í tvö hundruð ár.

Af Þorleifi og ættingjum hans í Svarfaðardal eru fornar sagnir um harðvítug átök höfðingjanna í dalnum, fyrirboða og forynjur, afdrifaríka kaupferð til Noregs, grimmd og dráp, kynngimagnaðan hefndarkveðskap og ómennskt víg á Þingvöllum. Allt er þetta rakið hér, frásagnir fléttaðar saman, prjónað við þær og fyllt í eyður svo úr verður þétt frásögn af hógværu skáldi sem skorast ekki undan knýjandi verkefni: að bjóða illskunni birginn.

Úr ritdómum:

„Engum manni er betur treystandi til þess en Þórarni Eldjárn að yrkja í orðastað fornra skálda og skrifa af þeim sögur. Textinn er ákaflega vandaður, það er mikill húmor í frásögninni og enn fremur gróteskar lýsingar. Þarna eru firn mikil, iður falla út, hausar fjúka og orðstír sem deyr aldregi. Allt sem prýða má góða Íslendingasögu og ég leyfi mér að fullyrða að sagnanördar munu falla í stafi yfir þessari bók.“

Þórdís Hrefna Sigurjónsdóttir, Fréttablaðinu.

„Hann er trúr hinum fornu sögum en hikar um leið ekki við að nota þær sem breytanlegan efnivið til að skapa úr þessa knöppu en áhugaverðu og stórskemmtilegu frásögn um hetjur, ástir og örlög, þar sem ljóð og skáldskapur eru í senn drifkraftur sögunnar og örlagavaldur persónanna. … Á grunni hinna fornu sagna hefur Þórarinn sett saman vel lukkaða og skemmtilega sögu, um skrautlegt upphaf byggðar í Svarfaðardal og mátt skáldskaparins.“

– Einar Falur Ingólfsson, Morgunblaðinu.

„… hvernig hann tekur þessi gömlu sagnaminni og leikur sér að þeim, það er bara rosalega fyndið … algerlega óborganlegt.“

– Egill Helgason, Kiljunni.

„Hann er með eindæmum orðheppinn og flinkur orðasmiður … óheyrilega fyndinn … gríðarlega vel gert og fallegt …Margir kaflar hreint út sagt stórkostlegir.“

– Fríða Björk Ingvarsdóttir, Kiljunni.

„Sagan er stutt og auðlæsileg … lítið er um samtöl og þau eru meitluð. Kvæðin sem fylgja upphafi hvers kafla eru frábærlega skemmtileg. Stíllinn er forn og nýr í senn, fallegur og rennur vel. Skáldið steinliggur. Og húmorinn er alls ráðandi.“

– Steinunn Inga Óttarsdóttir, wordpress.com

„Þórarinn Eldjárn er með fágæta skáldagáfu og segir sögu í texta eða ljóðum sem unun er að lesa … beinlínis uppbyggjandi fyrir líkama og sál að lesa bókina. Ef eitthvað er hæft í því að hlátur lengi lífið bætir lesandinn ábyggilega við sig nokkrum æviárum.“

– svarfdælasysl.com

„Stíll sögunnar er ekki síður afrek; forn og frumlegur í senn, fullur af kímni og glettum sem springa út í helstu „heimild“ sögumanns, hinni áður óþekktu Þorleifsdrápu Hallbjarnar þjóðskálds. Nútímalesandi finnur strax að hann er ekki byrjaður á neinni hversdagssögu. Sjálfum fannst mér það eins og að setjast við svala lind í gróinni birkilaut eftir klungur í brunahrauni þegar ég fékk Hér liggur skáld í hendur á jólavertíðinni í fyrra og byrjaði að lesa.

– Gísli Sigurðsson, Tímariti Máls og menningar.

„Saga Þórarins er einkar fagmannlega samin og skemmtileg aflestrar, einkum sá hluti sem spunninn er úr Þorleifs þætti og greinir frá samskiptum Þorleifs við Hákon Hlaðajarl sem voru söguleg í meira lagi.“

– Gunnar Stefánsson, Norðurslóð.

Upphaf sögunnar:

Endilangur löngum
lá á haugi bágur.
Skáld sá verða vildi,
valið nafn af hala.
Þar kom að Þorleifur
þungan strekkti tungu,
skyldi gera að skáldi
skauð og hirði sauða.

           – Úr Þorleifsdrápu Hallbjarnar þjóðskálds

1190

Hallbjörn sauðamaður keifar upp á hólinn og sest á þúfu. Tíkin lúskrast á eftir og leggst við fætur honum, gjóar á hann augum öðru hverju auðmjúk á svip, gáir hvort hann hyggur ekki á blund. Hún vill halda vöku sinni þangað til. Að venju sofnar hún þó brátt.

Nú eftir að þingtíma er lokið getur sauðamaður haldið fénu til beitar um allan þingstaðinn. Út um Vellina, inn á milli búða, á sjálfu Lögbergi og við Lögréttu. En meðan þing stendur er ekki til þess ætlast að Þingvallabændur láti fé sitt valsa um þessar slóðir. Það er brot á helgi þingsins. Þorkell bóndi í Gjótu sækist heldur ekki eftir því. Hann segir fénu mun hættara en mönnum af slíkum samgangi. Enn meiri yrðu þá vanhöldin. Nóg væri nú samt og engin ástæða til að auðvelda mönnum þann ljóta leik að kippa einni og einni skepnu inn fyrir búðardyr og skera þar heimullega. Bóndi er þess fullviss að flestir þingmenn liggi á því lúalagi en getur þó aldrei fært á það sönnur. Hann tortryggir allt og alla. Gengur um snuddandi og þefandi og fylgist með hvar nýmeti virðist í pottum, annað en fiskur úr vatninu. Hvetur fólk sitt til að hafa augun hjá sér. Þorir þó aldrei að bera sakir á aðkomumenn en fjargviðrast þeim mun meira heima fyrir.