Söguleg skáldsaga frá  sautjándu öld sem byggir á lífshlaupi Guðmundar Andréssonar (1615-1654). Haustið 1649 situr þessi íslenski almúgamaður frá Bjargi í Miðfirði bak við lás og slá í kóngsins Kaupmannahöfn eftir að hafa verið handtekinn á Kaldadal og færður utan án dóms og laga.

Guðmundur er skólagenginn og ágætlega lærður, fræðimaður og skáld. Aldrei hefur hann þó getað lært að bera tilhlýðilega virðingu fyrir yfirvöldum, veraldlegum sem andlegum, og það kemur honum í koll, enda um sína daga talinn „ólempið brotahöfuð“.

Honum er gefið að sök að hafa samið hneykslanlegt rit gegn Stóradómi, hinni harkalegu siðferðislöggjöf sem þjakaði Íslendinga um aldir.

Í Bláturni, einu illræmdasta fangelsi Danaveldis, bíður Guðmundur þess sem verða vill meðan hann veltir fyrir sér lífshlaupi sínu og reynir að raða saman brotum.

Brotahöfuð hlaut tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1997, til evrópsku Aristeion-verðlaunanna sálugu 1998, komst þar í 6 bóka úrslit og loks til alþjóðlegu IMPAC-Dublin-verðlaunanna 2001.

Brotahöfuð hefur komið út á ensku, finnsku, frönsku, dönsku og þýsku

Upphaf sögunnar:

Ég er hér mestan part einn með mínum hugsunum því vaktarar yrða lítt á mig svo ég skilji, annað en það er snertir brýnustu þarfir. Og sama gildir um þá mína samfanga sem ég fyrirhitt hef að ég skil lítt hvað þeir meina þó sumir séu kjaftagleiðir. Það var þá helst ég næði að ráða í málið hjá einum drukknum presti sem hér var lausagöngumaður part úr degi, en vildi svo tala latínu er honum skiljast tók ég væri einn lærður maður. Ekki spruttu þó þar af sérdeilis uppbyggilegar samræður, því hvort tveggja var að guðsmaður sá var kverkmæltur að hætti danskrar þjóðar í sínu latínumáli einnig, hvað mínum skilningi stórlega hamlaði og sofnaði auk þess fljótt þar sem hann sat utan við mínar dyr og var ekki löngu síðar á brott leiddur og sást ekki meir. Hann var einn hórdómsmaður sagður. Hér  koma menn og fara virðist mér, utan ég sjálfur sem einvörðungu kom. Skil ég þá undan þann morðingja Friðrik er frítt valsar um turninn.

Ég hef líka á mér allan vara gagnvart ýmsu því illþýði er hingað flýtur, þó ugglaust sé þar misjafn sauður í mörgu fé, eða hví skyldi ég vera sá eini er hér lendir saklaus innan dyra? Forsvara þó mína tortryggni svo spyrjandi: Gæti ég annað eftir allar þær hörmungar og hremmingar sem ég mátt hef þola af mönnunum og það jafnvel af ýmsum þeim er frómir áttu að teljast? Slíkir rógrennumunnar og bakvaskarar finnast án efa í öllum stöðum, en þó má ef til vill segja mínum núverandi ólukkubræðrum og systrum til afbötunar að þau sé skárra að varast en hina sem heiðvirðir þykjast, svo sem marga þá er í orði kváðust mínir góðir vinir, af hverjum ég þó annað margfaldlega fékk að reyna.