Heimildaskáldsaga frá því um aldamótin 1900. Árið 1898 kom til Íslands dularfullur franskur aðalsmaður, barón Charles Gauldrée Boilleau (1862-1901), stórættaður heimsborgari og hámenntaður listamaður, sellóleikari og tónskáld, sem vonaðist til að finna sjálfan sig í íslenskri sveit, órafjarri umbrotum heimsmenningarinnar í tíma og rúmi. Fyrr en varði hafði hann fest kaup á kostajörðinni Hvítárvöllum í Borgarfirði og hafið þar stórbúskap en einnig lagt á ráðin með ýmis fyrirtæki í höfuðstað landsins svo sem götuheitið Barónsstígur í Reykjavík vitnar um enn þann dag í dag.

Stórbrotnar hugmyndir hans féllu fæstar í frjóan jarðveg og brátt varð ljóst að háleitir draumar Hvítárvallabarónsins og íslenskur veruleiki áttu illa saman – nútíminn var ekki kominn til Íslands. Ein af annarri brustu vonir hans uns hann féll fyrir eigin hendi í lestarklefa í Lundúnaborg í árslok 1901.

Þetta er skáldsaga. Þó ýmislegt sé samkvæmt heimildum er einnig margt í heimildaleysi. Flest af því ótrúlegasta er satt, margt af því trúlegasta ósatt.

Úr ritdómum:

„Baróninn er frábærlega vel skrifuð bók og söguleg skáldsaga eins og þær gerast bestar.“

– Jón Ólafsson, Morgunblaðinu.

„Þórarinn Eldjárn hefur sannarlega sótt sér skrautfjöður með skáldsögu sinni um Baróninn.“

– Gauti Kristmannsson, Víðsjá.

„Sagan um baróninn á Hvítárvöllum er heillandi saga.“

– Halldór Guðmundsson, Fréttablaðinu.

„Það er óhætt að fullyrða að fáir verði sviknir af því að lesa Baróninn og upplifa þær tvíbendu tilfinningar sem kvikna við lesturinn. Því þótt sagan sé harmræn kemst maður ekki hjá því að hrífast og gleðjast yfir þessari sagnfræði Þórarins Eldjárns, blandinni dásamlegri lygi.“

– Hjalti Snær Ægisson, Skýjaborgum.

Upphaf:

Að Holborn Viaduct

London, 29. desember 1901

Þegar hann stígur út úr húsinu í Anerley á sunnudagskvöldi lykst þokan um hann, sest að honum honum eins og hún vilji leggja sitt af mörkum til að má hann út. Hann fyllist öryggiskennd við þetta. Honum finnst hann hjúpaður, eins og í dimmri skipskoju í haugasjó eða í tjaldi í stórhríð. Griðahulstur hefur hanns stundum kallað það.

Hann heyrir klukkur slá og einhversstaðar er verið að leika Caruso á grafófón. Hann staldrar við og hlustar og heyrir sér til undrunar að það er Nína: „Tre giorni son che Nina … “ Þetta lag Pergolesis sem hann þekkir svo vel. Eins og kveðja ef til vill?

Frá stigagöngum og gluggum hefur ívaf úr enskri matarlykt strjálast í rakt loftið. Það er vissulega blessun á stundum eins og þessari að eldamennska Englendinga hefur aldrei vakið honum  hungur. Hann staldrar við á tröppunum, sveipar frakkanum þéttar að sér, togar á sig hanskana, heyrir útihurðina hrökkva í lás og veit að nú verður ekki aftur snúið.